Skemmtilegar sundminningar

Elín Sigurðardóttir
Borðaði morgunmatinn með Clinton

 

Afrekskonan Elín Sigurðardóttir úr SH hætti að æfa og keppa í sundi árið 2000 eftir 18 ára keppisferil. Það má segja að hún hafi hætt á toppnum því þá átti hún Íslandsmetið í sinni bestu grein, 50 m skriðsundi, bæði í 25 og 50 m braut og nýbúin að keppa á Ólympíuleikunum í Sydney. Á löngum ferli tók hún fimmtán sinnum þátt í bikarkeppum SSÍ og hefur sjö sinnum orðið bikarmeistari. Hún var kjörinn "Íþróttamaður Hafnarfjarðar" 1996 eftir þátttöku sína á ólympíuleikunum á Atlanta.

"Mér fannst kominn tími til þess að hætta eftir Sydney en langaði þó að taka þátt í Evrópumeistaramótinu í stuttri braut sem fram fór í Valencía á Spáni í desember. Ég hætti síðan við það en ákvað að Bikarinn 2000 yrði mitt síðasta mót, enda orðin 27 ára og 18 ára keppni með SH og 14 ára keppni með landsliðinu að baki. Mér fannst líka kominn tími til þess að fara að sinna öðrum hlutum eins og náminu en ég er íþróttafræðingur að mennt og hef einnig stundað nám í Rope Yoga og Kripalu-nuddi í Bandaríkjunum.

 

Aðspurð um toppinn á sundferlinum sagði Elín að það væru Ólympíuleikarnir í Atlanta. "Það er engin spurning. Þeir voru mitt fyrsta stórmót en fyrir þá hafði ég aldrei tekið þátt í alþjóðlegum stórmótum, hvorki HM né EM. Þetta var því mikil upplifun fyrir mig og það má segja að ég hafi hálf "sjokkerast" þegar ég kom í fyrsta skipti til keppni í ólympíulauginni og sá alla áhorfendurna. Ég hafði aldrei á ævinni upplifað annað eins. Sjálf setningarhátíðin kom mér ekki eins á óvart þar sem ég hafði fyrirfram gert mér grein fyrir umfangi og glæsileik hennar. Ég var þó fljót að jafna mig á þessu og var strax tilbúin í slaginn daginn eftir."

Þegar Elín var spurð um muninn á Atlanta og Sydney sagði hún að sér hefði þótt meira gaman á leikunum í Atlanta. "Kannski var það vegna þess að þeir voru fyrsta stórmótið mitt og spennan og tilhlökkunin því meiri. Það var einhvern vegninn líka meira að gerast í Atlanta en þrátt fyrir sprengjuhótanir og mikla öryggisgæslu fannst mér þeir skemmtilegri. Þeir skilja alla vega meira eftir sig í mínum huga. Leikarnir í Sydney voru þó langt frá því að vera eitthvað leiðinlegir. Við fengum mikla athygli fjölmiðla enda fyrsti sundhópurinn sem mætti á svæðið, en við vorum alls níu í hópnum, þar af fjögur frá SH. Það var mikið gert úr því að við værum sá hópur sem kæmi lengst að, alla leið frá Íslandi og mikið spurt um aðstæður heimafyrir. Þeim fannst merkilegast að við skyldum æfa í útilaugum, jafnvel í hörkufrosti á veturna, þar sem hárið á okkur frysi þegar við færum upp úr lauginni."

 

Aðspurð um árangurinn á Ólympíuleikunum sagði Elín að hún væri þokkalega sátt við hann. "Ég keppti á báðum leikunum í 50 m skriðsundi og í svo stuttum vegalengdum má ekkert út af bera. Mínar væntingar voru að gera mitt besta og vonandi að hitta á besta dagsformið sem skilaði Íslandsmeti. Mér tókst það ekki en er þrátt fyrir það sátt við lífið og tilveruna."

Þegar Elín var spurð um undirbúninginn fyrir Ólympíuleikana sagði hún að hún hefði æft allt öðru vísi fyrir leikana í Sydney heldur en Atlanta. "Það byggðist á mismunandi áherslum og aðferðum þjálfaranna, en Klaus Ohk þjálfaði mig fyrir leikana í Atlanta og Brian Marshall fyrir Sydney. Með Brian komu nýjar áherslur og tækni, sem er mjög eðlilegt þar sem sundið er í sífelldri þróun eins og aðrar íþróttagreinar. Mér fannst æfingaálagið þó mjög svipað en auðvitað varð þetta erfiðara með aldrinum. Maður er mun lengur að ná sér niður eftir æfingarnar, því fann ég óneitanlega fyrir. Annars var allt púlið alveg ánægjunnar virði en ég viðurkenni þó fúslega að maður gat orðið ansi þreyttur á þessu, sérstaklega þegar sundæfingarnar voru orðnar ellefu í viku auk sex þrekæfina þegar mest var."

Elín segist eiga mjög góðar og skemmtilegar minningar frá sundárunum. "Minningarnar frá Atlanta standa þó alltaf uppúr. Þar varð ég svo fræg að sitja til borðs með sjálfum Bill Clinton, Bandaríkjaforseta, í morgunmat. Við Eydís Konráðsdóttir vorum einn morguninn á leið í borðsalinn þegar bankað var í bakið á okkur og við spurðar hvort við vildum borða morgunmatinn með Clinton. Þetta kom okkur auðvitað á óvart en við slógum til og áttum skemmtilega morgunstund með forsetanum. Honum fannst athyglisvert að við skyldum vera komnar alla leið frá Íslandi og spurði margs um land og þjóð. Sagðist reyndar einu sinni hafa komið til Íslands en þó aðeins til Keflavíkur í millilendingu."

Að lokum spyrjum við Elínu hvort hún hafi einhver skilaboð til þeirra yngri sem eru að hefja keppninsferilinn. "Það er nauðsynlegt að leggja mikla alúð við æfingarnar, stunda þær samviskusamlega og halda sér við efnið. Öðruvísi næst ekki árangur. Það verður líka að gefa þessu tíma og bíða þolinmóður eftir árangrinum. Hann kemur ekki á einum degi eða mánuði en skilar sér furðu fljótt ef vel er æft. En númer eitt er að hafa gaman að þessu. Hvað mig varðar þá hefði ég aldrei haldið þetta út svona lengi ef ég hefði ekki mætt á æfingar með bros á vör og haft gaman að. Það er á hreinu að maður er engu að fórna og fer ekki á mis við neitt betra. Ég væri ekki það sem ég er í dag nema fyrir sundið. Maður lærir ögun, byggir upp sjálfstraustið og mætir betur undirbúin til leiks. Þetta skilar sér alls staðar og maður býr að þessu alla tíð," sagði Elín að lokum, en hún rekur nú Rope Yoga stöð í Sporthúsinu í Kópavogi og hefur einnig stundað einkasundþjálfun og kennslu í Bandaríkjunum. Allar upplýsingar er að finna á vefsíðu hennar: elin.is

 

Þátttaka Elínar á stórmótum erlendis:


Ólympíuleikar:
Atlanta 1996
Sydney 2000


Heimsmeistaramót:
Gautaborg 1997
Evrópumeistaramót:
Rostock 1996
Sevilla 1997
Sheffield 1998
Istanbul 1999
Lissabon 1999
Smáþjóðaleikar:
Kýpur 1989
Andorra 1991
Malta 1993
Luxemburg 1995
Reykjavík 1997
Lichtenstein 1999