Aðspurð um árangurinn á Ólympíuleikunum sagði Elín að hún væri þokkalega sátt við hann. "Ég keppti á báðum leikunum í 50 m skriðsundi og í svo stuttum vegalengdum má ekkert út af bera. Mínar væntingar voru að gera mitt besta og vonandi að hitta á besta dagsformið sem skilaði Íslandsmeti. Mér tókst það ekki en er þrátt fyrir það sátt við lífið og tilveruna."
Þegar Elín var spurð um undirbúninginn fyrir Ólympíuleikana sagði hún að hún hefði æft allt öðru vísi fyrir leikana í Sydney heldur en Atlanta. "Það byggðist á mismunandi áherslum og aðferðum þjálfaranna, en Klaus Ohk þjálfaði mig fyrir leikana í Atlanta og Brian Marshall fyrir Sydney. Með Brian komu nýjar áherslur og tækni, sem er mjög eðlilegt þar sem sundið er í sífelldri þróun eins og aðrar íþróttagreinar. Mér fannst æfingaálagið þó mjög svipað en auðvitað varð þetta erfiðara með aldrinum. Maður er mun lengur að ná sér niður eftir æfingarnar, því fann ég óneitanlega fyrir. Annars var allt púlið alveg ánægjunnar virði en ég viðurkenni þó fúslega að maður gat orðið ansi þreyttur á þessu, sérstaklega þegar sundæfingarnar voru orðnar ellefu í viku auk sex þrekæfina þegar mest var."
Elín segist eiga mjög góðar og skemmtilegar minningar frá sundárunum. "Minningarnar frá Atlanta standa þó alltaf uppúr. Þar varð ég svo fræg að sitja til borðs með sjálfum Bill Clinton, Bandaríkjaforseta, í morgunmat. Við Eydís Konráðsdóttir vorum einn morguninn á leið í borðsalinn þegar bankað var í bakið á okkur og við spurðar hvort við vildum borða morgunmatinn með Clinton. Þetta kom okkur auðvitað á óvart en við slógum til og áttum skemmtilega morgunstund með forsetanum. Honum fannst athyglisvert að við skyldum vera komnar alla leið frá Íslandi og spurði margs um land og þjóð. Sagðist reyndar einu sinni hafa komið til Íslands en þó aðeins til Keflavíkur í millilendingu."
Að lokum spyrjum við Elínu hvort hún hafi einhver skilaboð til þeirra yngri sem eru að hefja keppninsferilinn. "Það er nauðsynlegt að leggja mikla alúð við æfingarnar, stunda þær samviskusamlega og halda sér við efnið. Öðruvísi næst ekki árangur. Það verður líka að gefa þessu tíma og bíða þolinmóður eftir árangrinum. Hann kemur ekki á einum degi eða mánuði en skilar sér furðu fljótt ef vel er æft. En númer eitt er að hafa gaman að þessu. Hvað mig varðar þá hefði ég aldrei haldið þetta út svona lengi ef ég hefði ekki mætt á æfingar með bros á vör og haft gaman að. Það er á hreinu að maður er engu að fórna og fer ekki á mis við neitt betra. Ég væri ekki það sem ég er í dag nema fyrir sundið. Maður lærir ögun, byggir upp sjálfstraustið og mætir betur undirbúin til leiks. Þetta skilar sér alls staðar og maður býr að þessu alla tíð," sagði Elín að lokum, en hún rekur nú Rope Yoga stöð í Sporthúsinu í Kópavogi og hefur einnig stundað einkasundþjálfun og kennslu í Bandaríkjunum. Allar upplýsingar er að finna á vefsíðu hennar: elin.is
|