Sundið var kennt í grýttri fjöru
Skemmtilegt viðtal við Hallstein var birt í jólablaði Alþýðublaðs Hafnarfjarðar árið 1964 og þar segir Hallsteinn svo frá: “Ég tók við sundkennslunni fyrsta vorið, sem ég var í Hafnarfirði (1929). Sund hafði þá verið kennt í bænum síðan 1908, sama ár og bærinn fékk kaupstaðarréttindi.....
.....Kennslan fór fram í fjörunni skammt frá, sem sundhöllin stendur nú nú. Þátttaka var mikil í sundinu, einkum þegar gott var veður, sólskin og hiti. Þá var mikið um börn og unglinga á fiskreitunum, og þau komu í stórum hópum í sjóinn eftir hádegið, meðan fiskurinn var að þorna í sólskininu, og fóru svo, þegar átti að fara að taka saman. Ég held, að sundgestirnir hafi skipt hundruðum suma dagana. Sumir komu á hverjum degi, hverning sem viðraði. Margt af þessu fólki kunni að synda, sumt var ágætlega synt, annað miður, margir gátu rétt fleytt sér, aðrir voru byrjendur. Og þetta fólk var á öllum aldri, en í þeim hópum, sem sóttu stöðuga kennslu, bar mest á börnum. – Ég byrjaði vanalega að kenna eftir hádegið og kenndi til klukkan fjögur eða fimm, og svo kenndi ég líka á kvöldin, stundum lengi fram eftir.
Þarna var dálítill skáli, sem notaður var til þess að hafa fataskipti í. En þegar aðsókn var mikil, reyndist hann öldungis ófullnægjandi. Þá fóru margir úr í gjótum og lautum í hrauninu, þar var nóg blessað skjólið.
Það var einkum tvennt, sem gerði sundkennsluna erfiða þarna vestur frá. Fjaran var stórgrýtt og grjótið hvassbrýnt og eggjótt. Það varð að fara varlega til þess að rífa sig ekki á því. Það erfiðasta fyrir nemendur var stundum að komast í sjóinn. Svo lagði stundum báru þarna upp að, og seinnui hluta sumars var þar oft sannkallað brim. Það gerði sundið varhugavert og jafnvel hættulegt þeim, sem lítið kunnu. En skelfing þótti nú mörgum yndislegt að láta ölduna lyfta sér.
Svo var annað: Þarna er aðdjúpt, og stafaði af því mikil hætta fyrir byrjendur. Og alltaf varð að hafa gát á því, að fólk hætti sér ekki of langt frá landi. Sérstaklega það, sem hélt, að það gæti dálítið. Við reyndum að láta það synda meðfram fjörunni. En það var erfitt og gera hvort tveggja í einu: kenna byrjendum og hafa vakandi auga á hinum, sem lengra voru komnir. Það kom fyrir, að við urðum að ná í bát og senda hann á eftir fólki, sem hafði farið of langt út. Ég man eftir því, að einu sinni missti ég tvo stráka út á fjörðinn; þeir áttu að synda með fram fjörunni, en datt í hug að synda út að skipi, sem lá í höfninni, og heyrðu ekki, þegar ég kallaði í þá, eða gengdu því ekki, og þegar ég var búinn að láta ná í bát og senda á eftir þeim, voru þeir komnir langleiðina yfir fjörðinn. - En aldrei urðu nein slys við kennsluna; það varð auðvitað stöku sinnum að bjarga nemendum, sem fataðist sundtökin, en það voru alltaf betur syndir menn viðstaddir til að gera það; - ég held að ég hafi ekki þurft að stinga mér nema einu sinni eða tvisvar af þeim sökum.
Við héldum sundmót á hverju ári, stundum hjá Gömlu bryggjunni, stundum hjá bryggju, sem var hjá íshúsi Ingólfs Flygenrings, og fram af fjörunni, þar sem skipasmíðastöðin Dröfn er nú. Mótin fóru vanalega fram seint í ágústmánuði. Þar var keppt til frægðar og verðlauna og ýmsir gátu sér góðan orðstír, en best var, hve margir tóku venjulega þátt í þessum mótum.”
Það er ljóst að brautryðjendur sundkennslunnar í Hafnarfirði hafa starfað við erfiðar aðstæður og eigum við þeim mikið að þakka. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og aðstaðan nú orðin önnur og betri, - sú besta á landinu. Með tilliti til sögunnar var það vel við hæfi að þrír hafnfirskir sundgarpar, þau Hrafnkell Marínósson, Konráð Hrafnkelsson og Birna Jóhanna Ólafsdóttir, syntu sjóleiðina frá Sundhöll Hafnarfjarðar áleiðis til nýrrar og glæsilegrar Ásvallalaugar, sem er nýjasti áfanginn í sundsögu okkar Hafnfirðinga.
Erlingur Kristensson
|