Sundfélag Hafnarfjarðar var stofnað 19. júní árið 1945
Stofnfundurinn var haldinn í Sjálfstæðishúsinu og var hann fjölsóttur og mikill áhugi meðal fundarmanna. Aðdragandinn að stofnun félagsins var að árið 1943 hafði sundlaugin við Krosseyrarmalir verið tekin í notkun og fóru upp frá því að heyrast raddir um að nauðsynlegt væri að stofna sundfélag í bænum. Málinu var hreyft á stofnfundi Íþróttabandlags Hafnarfjarðar þann 28. apríl árið 1945 og bar það þann árangur að safnað var undirskriftum í bænum til stuðnings því að stofnað yrði félag. Alls 235 undirskriftir söfnuðust og var því ákveðið að stofna félagið sem hlaut nafnið Sundfélag Hafnarfjarðar og var Gísli Sigurðsson, lögregluþjónn og íþróttafrömuður, fyrsti formaður þess. Áður, eða árið 1928, hafði reyndar verið stofnað félag með sama nafni, í því skyni að reisa sundlaug í bænum þá um sumarið og var þá sótt um lóð sem næst nýju rafmagnsstöðinni við Strandgötu, þar sem kostur var á heitu endurgjaldslausu vatni frá stöðinni. Ekkert varð úr þessari ráðagerð og lagðist félagið því af. Hið nýja félag hóf brátt æfingar og var Guðjón Sigurjónsson, íþróttakennari, fyrsti þjálfari félagsins. Það starfaði með miklum blóma til ársins 1947, en þá dofnaði yfir starfsemi þess og var hún lítil til ársins 1949. Því olli aðallega að sundlaugin var opin, sem dró úr aðsókn þegar kólna fór að vetrinum og endaði með því að starfsemin lagðist alveg af veturinn 1949-‘50. Um haustið var starfseminni komið aftur af stað að frumkvæði þeirra Yngva Rafns Baldvinssonar og Guðjóns Sigurjónssonar og hófust nú æfingar í Sundhöll Reykjavíkur þar sem æft var til vorsins 1953, þegar lokið hafði verið við að byggja yfir laugina við Krosseyrarmalir, sem eftir það hét Sundhöll Hafnarfjarðar. Þann 13. júni 1953, þegar Sundhöllin var opnuð fékk félagið þegar sérstaka æfingatíma og hefur alla tíð síðan haldið þar uppi sundæfingum.
|