Árið 1972

Þessi grein var birt í jólablaði Alþýðublaðs Hafnarfjarðar árið 1972.

Sundfólk í sókn

Starfsemi Sundfélags Hafnarfjarðar hefur verið með miklum blóma á þessu ári. Framfarir sundfólksins hafa verið mjög miklar og hefur þjálfari félagsins, Ólafur Guðmundsson, unnið þar mikið og óeigingjarnt starf, sem vert er að meta og þakka.

Sem sýnishorn af dugnaði sundfólksins skal hér getið nokkurra afreka, sem það hefur unnið.

Vilborg Sverrisdóttir er í íslenska landsliðinu og fór með því í keppnisferð sl. sumar til Danmerkur og Skotlands. Á Sundmeistaramóti Íslands varð hún þrefaldur Íslandsmeistari, í 100 m skriðsundi kvenna á 1:06,5 mín., í 400 m skriðsundi kvenna á 5:16,6 mín. og í 800 m skriðsundi kvenna á 10:51,4 mín. Einnig varð hún önnur í 100 m baksundi kvenna og þriðja í 200 m baksundi kvenna.

Guðmundur Ólafsson er annar besti bringusundmaður landsins. Á Íslandsmeistaramótinu varð hann annar í 100 m bringusundi karla á 1:14,2 mín., annar í 200 m bringusundi karla á 2:43,7 mín. og þriðji í 400 m bringusundi karla á 5:54,5 mín. Guðmundur er afar fjölhæfur sundmaður. Svo er einnig Guðjón Guðnason, sem varð þriðji í 100 m skriðsundi karla á 1:03,5 mín. Hefur hann náð mjög athyglisverðum árangri í fjórsundi karla. Örn Ólafsson og Jón Hauksson er og mjög góðir sundmenn.

Hópur sundfólks frá SH tók þátt í keppnisferð til Darmstadt í Þýskalandi sl. sumar ásamt sundfólki úr fimm öðrum sundfélögum. Fararstjóri var Ólafur Guðmundsson. För þessi heppnaðist mjög vel og komu allir hafnfirsku þátttakendurnir með verðlaun heim úr þeirri ferð.

Óhætt er að segja, að fjöldi þess sundfólks, sem nú æfir hjá SH, gefur vonir um að hafnfirskt sundfólk nái góðum árangri í íþrótt sinni, hér eftir sem hingað til.