Sundkennsla í Hafnarfirði

Eftirfarandi grein um upphaf og sögu sundkennslu í Hafnarfirði til ársins 1943 er sótt i sagnabrunn Gísla heitins Sigurðssonar, íþróttafrömuðar og fyrsta formanns Sundfélags Hafnarfjarðar. Greinin var birt í jólablaði Alþýðublaðs Hafnarfjarðar árið 1960.

 

Hafnarfjörður um aldamótin 1900

 

Ekki verður í efa dregið að á fyrstu öldum eftir Íslands byggð, hafi sundkunnátta verið allalmenn meðal Íslendinga. Meðan Íslendingar voru farmenn, stunduðu verslun og höfðu margs konar samskipti við aðrar þjóðir, mun sundlistin hafa verið mikið iðkuð, og er þess víða getið að þeir hafi verið góðir sundmenn. Um þetta eru Íslendingasögurnar óljúgfróðastar. Nægir í þessu sambandi að nefna Egil Skallagrímsson, Kjartan Ólafsson, Þormóð Kolbrúnarskáld og Gretti Ásmundsson. Þegar svo Íslendingar sjálfir hættu að mestu að stunda siglingar, þ.e. þegar land og þjóð kemst undir erlend yfirráð, dofnar yfir sundlistinni, og þegar kemur fram á 18. öld er talið að varla nokkur maður geti bjargað sér á sundi. Undantekningar eru þó menn eins og Hafnarbræður, Snorri síðar prestur á Húsafelli og bræður hans, enda annálaðir krafta- og fræknleikamenn.

 

Sund-Gestur
Upp úr aldamótunum 1800 fer svo aftur að vakna áhugi á sundíþróttinni. Þá hefur Jón Kjærnested sundkennslu. Hann kenndi víða um land. Sund-Gestur eða Gestur Bjarnason, eins og hann hét fullu nafni, kemur næst við sögu sundsins. Hann kenndi og víða um land sund við laugar. Hann dvaldist m.a. á Álftanesi, en hvort hann hefur lagt stund á sundkennslu veit ég ekki, en hann kenndi glímu enda var hann líka nefndur Glímu-Gestur. Heldur er fátt vitað um sundkunnáttu í nágrenni Hafnarfjarðar eða í hinum forna Álftaneshreppi. Þegar Bessastaðaskóli hefur starfað í nokkur ár vaknar mikill áhugi á líkamsrækt. Þá verður Álftaneshreppur með Bessastaðapilta í fararbroddi, eitt hið mesta íþróttahérað landsins og var það um árabil. Skemmtilegan þátt um íþróttir í Bessastaðaskóla og samskipti skólapilta og vermanna er að finna í endurminningum Páls Melsteðs. Þar segir frá sundkunnáttu skólapilta og afrekum þeirra. Þegar Páll kemur í skólann 1828 eru þar fyrir nokkrir piltar, sem kunnu að synda og kenndu öðrum, og hjá þeim lærði Páll sjálfur að synda.

 

Hvern einasta dag í sjóinn
Páll segir frá því, að sumarið eftir fyrsta veturinn í skólanum dvaldist hann og tveir aðrir piltar á Bessastöðum. Bundust þeir fastmælum um það að fara hvern einasta dag um sumarið í sjóinn og synda. Skyldi sá, sem sleppti úr degi, vera sekur talinn og greiða “eitt ríksort”. Páll var yngstur þeirra félaga, aðein 14 ára að aldri. Hann sleppti þó aðeins einum degi, en þeir félagar fóru í sjóinn langt fram á vetur. Syntu þeir oft milli skara á Lambhúsatjörn og gengu tólkaðar fjörurnar til þess að komast til sunds í Bessastaðatjörn. Það verður að teljast fremur ólíklegt að heimamenn í Álftaneshreppi hafi farið að dæmi Bessastaðapilta. Í sóknarlýsingu sinni 1842 segir síra Árni Helgason að enginn maður sé sundfær í Garða- og Bessastaðasóknum.

 

Upphaf sundkennslu í Hafnarfirði
Fátt er vitað um sundkennslu í Hafnarfirði fyrir þjóðhátíðarárið 1874. Þá um sumarið dvaldist hér í Firðinum Páll nokkur Pálsson, ættaður úr Skagafirði. Hann var syndur vel og synti í sjónum. Vakti það löngun Sveinbjarnar Egilssonar, síðar ritstjóra, til þess að fá tilsögn í þessari list hjá Páli. Fór kennslan fram undir Sjávarhamri eða Vesturhamri. Eftir sumarið var Sveinbjörn orðinn allvel sundfær, og þótti það í frásögur færandi. Ekki er kunnugt að aðrir Hafnfirðingar hafi lært sund í þetta sinn. Fjórtán eða fimmtán árum síðar lærði Árni Jónsson, síðar timburkaupmaður í Reykjavík, að synda í Sundlaugunum í Reykjavík. Gekk hann báðar leiðir milli bæjanna í mánaðartíma, en eftir þann námstíma fór Árni oft í sjóinn og synti þá jafnan við Fiskaklett. Sundiðkun Árna vakti síðan athygli annarra ungra manna í Hafnarfirði. Fengu þeir Árna til þess að sýna sér sundtökin og kenna sér sund. Næst lærir svo Jens, sonur Chr. Zimsen kaupmanns, sund í Sundlaugunum í Reykjavík. Urðu nú sundfarir tíðar með ungum Hafnfirðingum. Syntu þeir aðallega við Fiskaklett, Gatklett og í Draugaklifi, hyljum Urriðakotslækjar og allt upp í Kaplakrika. Sundfarir lögðust svo niður að heita mátti, enda fluttu þessir ungu menn burt úr Firðinum.

 

Sund kennt „á þurru“
Haustið 1892 kemur í Flensborgarskóla piltur úr Vestmannaeyjum, Högni Sigurðsson, glímumaður mikill og sundmaður góður. Í skólaskýrslu 1894 er þess getið að m.a. sé kennt sund „á þurru“. Höfðu skólapiltar þessa kennslu á hendi. Hér var það t.d. Högni, sem kenndi. Þegar ég átti tal við Högna um þessa kennslu, fimmtíu árum síðar, sagðist honum svo frá:
“Þegar ég kom í Flensborgarskóla var nýbúið að byggja “leikfimihúsið”. Þar glímdum við. Eftir hverja glímustund fór ég í sjóinn og synti. Enginn skólapilta kunni þá sund, en margir þeirra óskuðu eftir tilsögn. Við fórum því á fund skólastjóra, Jóns Þórarinssonar og fengum hjá honum leyfi til þess að setja upp rólur í einu horni leikfimihússins. Þarna kenndi ég svo nokkrum piltum sundtökin, en aldrei fóru þeir í sjó þennan vetur. Seinna fékk ég bréf frá þessum piltum. Hafði sumum þeirra tekist að halda sér á floti, þegar heim kom.” Ekki varð framhald á sundkennslu í Flensborg eftir að Högni hverfur úr skóla.

 

Synti oft langt út á fjörð
Teitur Stefánsson Líður nú áratugur. Árið 1907 er stórhýsi Ágústs Flygenrings í smíðum. Að byggingu hússins vann meðal annars ungur maður, Teitur Stefánsson að nafni. Hann var sundmaður góður og fór oft í sjóinn. Lagðist hann þá stundum til sunds hér inni í Firði og synti oft langt út á fjörð. Þóttu þetta mikil tíðindi. Meðal áhugasamra íþróttamanna í Firðinum voru þeir Jóel Ingvarsson og Árni Helgason (síðar ræðismaður í Chicago). Kynntu þeir sér sundaðferð Teits og tókst þeim að læra að synda, og var þá gleði þeirra mikil. 

 

Sótt um 80 króna styrk
Hinn seytjánda dag júnímánaðar var Ungmennafélagið 17. júní stofnað í Hafnarfirði. Meðal annars hafði það á stefnuskrá sinni að endurvekja og leggja rækt við sundlistina. Í gjörðabók bæjarstjórnar frá 18. júní sama ár má sjá, að félagið hefur sótt um 80 króna styrk til þess að koma á sundkennslu. Félaginu var veittur umbeðinn styrkur gegn sömu fjárupphæð úr landssjóði, enda sæktu eigi færri en 20 manns sundnámskeiðið.

 

Kennslan um allan fjörð
Félagið hafði augastað á Teiti Stefánssyni sem sundkennara. Hann vann þá við byggingu læknisbústaðar, þ.e. hús Þórðar Edilonssonar. Teitur var albróðir Guðrúnar Stefánsdóttur, móður Ásmundar bakarameistara og þeirra systkina. Teitur var við trésmíðanám á árunum 1902-1906, og lærði hann þá að synda hjá Páli Erlingssyni. Árið 1908 er Teitur við sundkennslu að Leirárlaug í Leirársveit. Var hann því ekki alls óvanur sundkennslu, er hann hóf kennslu í Hafnarfirði. Síðar eða fyrir nokkrum árum átti ég tal við Teit um sundkennslu hans í Hafnarfirði, lét hann þess getið að gaman hefði verið að kenna hér sund, þótt aðstæður hefðu verið slæmar. Hann hraktist með nemendur sína um allan fjörð. Þeir voru suður á “Banka”, í kolaskúr hjá “Milljónafélaginu”, í salthúsi hjá Einari Þorgilssyni og í skúr hjá Ágúst Flygenring. Ungmannafélagið stóð við þau skilyrði, sem því voru sett. Yfir 20 áhugasamir menn sóttu námskeiðið, þar á meðal sá, sem tók við sundkennslu af Teiti. Hér var unnið merkilegt brautryðjendastarf, en síðan hefur eigi orðið hlé á sundkennslu, að heita má, hér í Hafnarfirði, og hafa ávallt valist til sundkennslunnar áhugasamir, traustir og ágætir kennarar.

Árin 1910, 1911 og 1912 kenndi einn nemenda Teits, Árni Helgason, síðar doktor og ræðismaður í Chicago. Hann sótti og námskeið hjá Birni Jakobssyni við skálann í Skerjafirði, en skáli þessi var vígður þjóðhátíðardaginn 1909. Árni kenndi við bátabryggjur Milljónafélagsins. Þá taka konur að læra sund, og urðu þessar fyrstar í flokki: Ingibjörg Ögmundsdóttir, Elísabet Böðvarsdóttir, Sigríður Eyjólfsdóttir og Gyða Sigurðardóttir. Sundsýningar voru haldnar að sundkennslu lokinni, og var þá oft þreytt kappsund milli bryggjanna.

 

Byggður skáli og létt bryggja

Árið 1913 kenndi Bjarni Bjarnason skólastjóri sund. Það ár var byggður skálinn í Hellufjöru. Þá var líka smíðuð létt bryggja til notkunar við sundkennsluna. Sumar þetta var kalt og votviðrasamt.

Árið 1914 kenndi Þórður Guðnason skólastjóri. Þetta sumar var síst betra veður, og kvarta báðir þessir kennarar yfir því, að slæm veðrátta eigi drýgstan þátt í því hve þátttakan var dræm. Þó tóku 30-40 manns þátt í námskeiðunum hvort sumar og nær helmingur nýliðar.

Árið 1915 eru þrír kennarar ráðnir til sundkennslu í Hafnarfirði, fyrst Friðrik Bjarnason, en hann sleppti starfinu, og var þá ráðinn Stefán nokkur Guðmundsson. Í upphafi námskeiðsins fékk hann svo hastarlega lungnabólgu að hann dó. Þetta var mikið og gott mannsefni, bróðir Einars B. Guðmundssonar lögfræðings í Reykjavík. Þá er það að Grímur Andrésson er ráðinn til starfsins.
 

 

Reyndist hann mjög þrautseigur og áhugasamur sundkennari. Aðsókn að námskeiðum hans fór stöðugt vaxandi. Til eru frá þessum árum mjög greinagóðar skýrslur og heimildir um sundnámskeiðin, sem Grímur sendi bæjarstjórn á haustin, að námskeiðum loknum. Lét hann meira að segja taka ljósmyndir frá námskeiðunum og sendi þær með skýrslum sínum. Grímur gaf ekki kost á sér til kennslunnar árið 1919.

 

Sundið átti hauk í horni
Einhver efnilegasti og besti sundmaður hér í Firðinum um þessar mundir er Jakob A. Sigurðsson. Fyrir áeggjan Gríms sækir hann sundnámskeið hjá Páli Erlingssyni í Reykjavík. Fékk hann ágæt meðmæli frá Páli, og sækir um sundkennarastarfið í Hafnarfirði, þá aðeins 17 ára gamall. Þegar umsóknin kom fyrir bæjarstjórn hafði einn bæjarfulltrúi þau orð um: Að það væri mikill ábyrgðarhluti að láta barn kenna börnum sund! Umsókninni var því hafnað. Skyldi sundkennsla lögð niður, þar sem enginn annar hafði sótt um starfið. En sundið átti hauk í horni, þar sem Magnús Jónsson bæjarfógeti var. Hann sagði við Jakob: Auglýstu kennsluna, og taktu tvær krónur af hverjum nemanda. Það, sem á vantar að þú fáir sæmilega greiðslu fyrir starf þitt, skal ég greiða úr eigin vasa. Sundkennslu megum við ekki láta niður falla. Með þetta veganesti ýtti Jakob úr vör og farnaðist vel. Hann kenndi hér sund frá 1919- 1928. Meðal nemenda 1919 var undirritaður.

Jakob kenndi í Hellufjöru allt fram til ársins 1926. Það ár var St. Jósepsspítali byggður, og þótti þá ekki lengur rétt að kenna sund í fjörunni vegna frárennslisins frá sjúkrahúsinu. Jakob flutti sig þá vestur að Gatkletti, og fór sundkennsla þar fram sumurin 1928-1929.

 

Hallsteinn flytur í Fjörðinn
Haustið 1929 flytur Hallsteinn Hinriksson í Fjörðinn, og 1930 tekur hann við sundkennslunni og kennir samfleytt til 1939. Fyrstu fimm árin kennir hann við Gatklett, en síðari árin fjögur við Skiphól í Óseyrartjörn. Á stríðsárunum leggst svo sundkennsla alveg niður hér, og er þá farið með fullnaðarprófsbörnin til sundnáms í sundlaugum úti á landi. Fylgdi Hallsteinn jafnan hópunum. Árið 1943 er Sundhöll Hafnarfjarðar byggð og verður þróunarsaga sundlistarinnar frá því ári til þessa dags ekki rakin hér. En tilgangur þessarar greinar var aðeins að gefa nokkurt yfirlit um sundkennslu í Hafnarfirði frá upphafi og þar til Sundhöllin kemur til sögunnar.

 

Til gamans og fróðleiks
Verður nú vikið að ýmsu til gamans og fróðleiks um sundkennsluna á árunum 1908-1943. Áður er á það minnst, að sundkennslan fór fram suður á Banka í Hellufjöru við bryggjur Milljónafélagsins þ.e. að Strandgötu 50, við bryggju Einars Þorgilssonar og við Edinborgarbryggju, þ.e. þar sem Bæjarútgerðin stendur nú.

Í fyrstu varð fólk að gera sér að góðu að afklæðast í tjöldum, kolaskúrum og salthúsum, en árið 1912 er reistur skáli í Hellufjöru. Bætti hann úr brýnni þörf. Var hann notaður til ársins 1920.

 

Hallsteinn með sundflokk

 

Um þær mundir var mikið tómahljóð í bæjarkassanum, enda bæjarsjóður illa stæður. Sá bæjarstjórnin sér þá leik á borði og seldi sundskálann Júlíusi Nýborg, sem þá var að reisa skipasmíðastöð sína í Hellufjöru. Ekki er vitað hvort þetta bjargaði bæjarsjóði, en Jakob sundkennari gafst ekki upp, þótt syrti í álinn. Hann fékk léða fjárhúskytru við beituskúr frá Hellu, sem enn stendur þar í fjörunni. Setti Jakob bekki á jöturnar og fjalir fyrir ofan með nöglum til þess að hengja fötin á. Eigi var nema ein vistarvera, og gat því engin kona lagt stund á sund við þessar aðstæður. Þarna kenndi Jakob í tvö sumur. Árið 1923 fær Jakob leyfi til þess að taka út timbur í skála, en ekki fékk hann að greiða smiði. Byggði hann síðan skálann með aðstoð vinar síns Óskars L. Steinssonar kennara. Þennan skála notaði Jakob til ársins 1926. Skála þessum var þá fleytt vestur á Krosseyrarmalir og hann notaður áfram við sundkennslu til ársins 1935.

 

Hallsteinn kennir við Gatklett

 


Þá var það að einn valdamikill maður lagði leið sína vestur á Malir og fór í sjóinn. Hann rak sig á hrúðurkarla á skeri einu. Var því sundstaðurinn fordæmdur og skálinn enn fluttur og nú suður að Skiphól. Þar endaði svo sundkennsla í Hafnarfirði 1939.

 

Fyrsta sundsýningin

Árni Helgason mun hafa orðið fyrstur sundkennara til þess að halda sundsýningu og láta fara fram kappsund. Þetta var um miðjan ágúst 1912. Var kappsundið þreytt milli syðri og nyðri bryggjunnar hjá Milljónafélaginu. Lítið er vitað um þetta kappsund. Árið 1913 þreytir Bjarni Bjarnason kappsund í Reykjavík, hið svokallaða „Nýársund“. Varð hann annar, næstur Erlingi Pálssyni. Hafði Bjarni farið í sjóinn dag hvern um haustið og vetur fram að nýári. Bjarni segist hafa vakað í boði á nýársnótt til klukkan þrjú. Fór hann á fætur klukkan átta morguninn eftir og hjólaði til Reykjavíkur. Sundkeppnin fór fram klukkan tíu og heim var Bjarni kominn í hádegismat klukkan tólf með verðlaunapeninginn.

Engar sundsýningar voru hér árin 1913-14, og ekki heldur í tíð Gríms Andréssonar. Hins vegar hélt hann hóp sínum vel saman, fór í ferðalög, m.a. að Hvaleyrarvatni, og lét hann þreyta sund þar.

 

Íslandsmót og Hafnarfjarðarsund
Þegar Jakob Sigurðsson hóf sundkennslu voru nýliðar í miklum meirihluta fyrstu árin. Árið 1922 efnir hann þó til sundkeppni. Ekki er vitað um árangur, en piltur að nafni Guðmundur Steinsson sigraði þá. Árið eftir fóru fram sundkeppnir og sýningar, en ekkert er skrásett um þær. Árið 1924 fara tveir vaskir Hafnfirðingar til keppni í Reykjavík. Axel Eyjólfsson tekur þátt í Íslandsmótinu og verður fjórði, og Jón Ingi Guðmundsson verður annar í 200 m sundi fyrir unglinga. Sama haust er efnt til sundmóts, og vakti 300 m sundkeppnin mesta athygli. Var það kallað Hafnarfjarðarsundið og skyldi sá verða kallaður Sundkóngur Hafnarfjarðar, sem sigraði. Jón Ingi Guðmundsson, 12 ára, fór með sigur af hólmi. Aðrir þátttakendur voru Matthías Oddur Helgason og Þorsteinn Jónsson. Keppt var um standmynd og silfurpening í festi. Áttu verðlaunin að vinnast þrjú ár í röð og þá til eignar. Jón Ingi sigraði í bæði skiptin næstu tvö árin og eignaðist hvorttveggja, styttuna og peninginn. Í sambandi við þessa keppni fóru fram sundsýningar, dýfingar, kafsund o.fl. Þessi mót voru haldin í Hellufjöru fram til ársins 1926.

 

Svam um allan sjó
Þegar sundkennslustaðurinn var fluttur, voru mótin að sjálfsögðu haldin þar einnig. Þau fóru fram við Haddensbryggju (framan við fiskverkunarstöð Lofts Bjarnasonar). Árið 1927 var Hafnarfjarðarsundið stytt niður í 200 m og gefinn bikar til þess að keppa um. Jón Ingi vann sundkeppnina 1927 og 1928. Var hann þá fluttur til Reykjavíkur og farinn að keppa fyrir Sundfélagið Ægi. Árið 1927 bar það til nýlundu að sýndur var björgunarbúningur, gúmbuxur og bolur, þéttreimaður upp í háls. Jón Mathiesen vatt sér í þennan búning og svam í honum um allan sjó. Var hann þá ekki syndur, og ég held hann sé það ekki enn! Árið 1928 var efnt til kappróðurs. Tóku þátt í því sveitir, fjórir á báti með stýrimanni. Sveit Jabobs Sigurðssonar sigraði.

Árið 1927 sigraði Jón Ingi í Íslandssundinu og varð Sundkóngur Íslands. Hélt hann þeim titli næstu tvö árin en tapaði fyrir Jónasi Halldórssyni árið 1930. Jón Ingi kemur mjög við sögu sundsins hér á landi, og 1936 var hann meðal þeirra, sem kepptu á Olympíuleikunum 1936 í Berlín. Hann hefur kennt sund í ýmsum félögum í Reykjavík og efnt til námskeiða sjálfur. Skátafélögin í Reykjavík og Hafnarfirði efndu eitt sinn til sundmóts og varð Jón Ingi sigurvegari þar í nokkrum greinum. – 1929 er ekkert sundmót haldið.

 

Keppni mjög hörð á köflum

Þegar Hallsteinn Hinriksson tekur við sundkennslunni hratt hann af stað sundmóti af miklum dugnaði. Ýmis félög í bænum gáfu bikara til mótsins, t.d. FUJ og FUS. Var góð aðsókn að þessum mótum Hallsteins og keppni mjög hörð á köflum. Mótin fóru oftast fram við gömlu Hafskipabryggjuna. Hallsteinn fór með sundfólk til Reykjavíkur og sótti þangað verðlaun, en enginn varð eins frægur og Jón Ingi Guðmundsson.

Árið 1939 lagðist sundkennsla niður, eins og fyrr var getið, og sundmót þar með. Á ársafmæli Sundhallarinnar 1944 voru sundkeppnir aftur upp teknar.

Rétt er að geta þess að þeir Jakob og Hallsteinn gáfu framan af verðlaun þau, sem um var keppt hverju sinni. Þannig var greiðsla, sem þeir áttu að fá fyrir erfiði sitt, oft stórlega skert. Áttu verðlaunin og hinn brennandi áhugi sundkennaranna drýgstan þátt í því að efla sundíþróttina í bænum. Standa Hafnfirðingar í mikilli þakkarskuld við þessa þrautseigu eljumenn, sem fórnuðu ótrúlegum tíma í þessi áhugamál sín og urðu oft á tíðum að láta sér nægja aðeins ánægjuna af árangursríku og heilladrjúgu starfi.

 

Reynt að stofna sundfélag

Jakob Sigurðsson reyndi að stofna sundfélag hér í bænum 1925 eða 1926. Boðaði hann til fundar, hélt snjalla og hvetjandi ræðu, en máli hans var fálega tekið, og ekki varð úr félagsstofnun.

Bygging sundlaugar í Hafnarfirði mun fyrst hafa borið á góma árið 1926, þegar „mótorrarljósastöðin“ var reist. Var þá hugmyndin að nota kælivatnið frá vélinni til laugarinnar. Ekki komst þessi hugmynd í framkvæmd. Árið 1935 kemst bygging sundlaugar enn á dagskrá. Efndi Knattspyrnufélagið Haukar til borgarafundar um málið. Virtust margir hafa áhuga á þessu máli, lofuðu peningaframlögum og dagsverkagjöfum, en málið strandaði.

Löngu síðar eða árið 1941 komst svo skriður á þetta mál og það farsællega til lykta leitt og Sundhöll Hafnarfjarðar var byggð, mesta og glæsilegasta íþróttamannvirki, sem til þessa hefur verið reist í Hafnarfirði. Sundhöll Hafnarfjarðar var vígð 29. ágúst 1943.

 


Sundhópur Gríms á ferðalagi

Erlingur Kristensson skráði
4. september 2008