Samfelldur gróskutími

Yngvi Rafn Baldvinsson, fyrrverandi forstöðumaður Sundhallar Hafnarfjarðar og síðar íþróttafulltrúi í Hafnarfirði, var formaður stjórnar Sundfélags Hafnarfjarðar á árunum 1950 til 1953 og svo aftur 1954 til 1957. Óhætt er að segja að Yngvi Rafn og félagar hans hafi tekið við stjórn félagsins á erfiðum tíma, rúmum fimm árum eftir að frumkvöðlarnir undir stjórn Gísla Sigurðssonar höfðu rutt brautina frá stofnun félagsins þann 19. júní árið 1945.

Í grein sem Magnús Þorkelsson, fyrrverandi formaður SH, skrifaði í 50 ára afmælisrit Sundhallar Hafnarfjarðar árið 1993 segir að eftir stofnun félagsins hafi verið greinilegur barningur við að halda starfseminni gangandi. “Laugin var aðeins opin hlýjasta hluta ársins og sést í fundargerðum að reynt var að smala börnum til starfa og þátttöku í mótum. Lá starfið niðri um hríð en á aðalfundi í mars 1947 var einmitt rætt mikið um starfsskilyrðin og fór það saman við hugmyndir manna um að byggja yfir laugina,” segir Magnús í greininni.

Um þetta tímabil segir svo í 50 ára afmælisriti ÍBH árið 1996: “Svo til strax eftir stofnun Sundfélags Hafnarfjarðar var mikil gróska í starfi félagsins og var það ekki síst að þakka ötulum formanni þess, Grími Kr. Andréssyni. Þó leið ekki langur tími þar til dofnaði verulega yfir starfinu og kom þar m.a. til að sundlaugin var óyfirbyggð og notkun hennar mest bundin sumartímanum, þegar best viðraði. Árið 1950 lá starfsemi Sundfélagsins svo að segja niðri allt árið, en á því ári féll formaður þess, Grímur Kr. Andrésson, frá og mun fráfall hans ekki hvað síst hafa átt þátt í því að svo fór.”

 

Ekki vantaði áhugann

Þegar Yngvi Rafn var spurður um þetta tímabil í sögu félagsins sagði hann að starfsemin hefði vissulega gengið skrykkjótt fyrstu árin. “Fyrir því var fyrst og fremst ein ástæða, sem var aðstöðuleysið, því ekki vantaði áhugann. Hér var að vissu leyti komin ákveðin hefð fyrir sundi og sundkennslu allt frá árinu 1909 þegar Ungmennafélagið 17. júní hélt fyrsta sundnámskeiðið hér í Hafnarfirði, svo að þetta hefði átt að geta gengið með betri aðstöðu.”

Eins og annars staðar kemur fram í blaðinu, var því hreyft á félagsfundi haustið 1950, hvort ekki væri vænlegt að fela ungum og áhugasömum mönnum stjórn félagsins. Um það mál sagði Yngvi Rafn: “Það má segja að með fráfalli Gríms Kr. Andréssonar hafi verið komið að vissum tímamótum hjá félaginu. Gísli Sigurðsson, sem þá var enn í stjórninni, hafði samband við okkur Guðjón Sigurjónsson og spurði hvort við værum tilbúnir til þess að taka þetta að okkur. Það varð úr að við samþykktum að gefa kost á okkur og var ég kosinn formaður félagsins en Guðjón varaformaður á aðalfundi í október 1950, en auk okkar voru kosin í stjórnina þau Sigríður Guðbjörnsdóttir, Hjörleifur Bergsteinsson og Garðar Sigurðsson.”

 

Æft í Reykjavík
-En hvað gat ný stjórn gert til þess að halda starfinu gangandi? “Á þessum tíma höfðu bæjaryfirvöld ekki enn fengið fjárfestingarleyfi frá ríkinu til að hefja yfirbyggingu laugarinnar svo það var ekki um annað að ræða hjá okkur en reyna að fá æfingaaðstöðu í Sundhöll Reykjavíkur. Þeirri málaleitan var vel tekið og æfði tíu eða tólf manna hópur tvisvar í viku fram á vorið 1951 eða þar til opnað var fyrir æfingar í Hafnarfirði með hækkandi sól. Það má því segja að mikið hafi verið haft fyrir hlutunum en allt gekk þetta vel og árangurinn ágætur á þeim mótum sem sundfólkið okkar tók þátt í. Þá um vorið fékkst loksins langþráð fjárfestingarleyfi og hófust framkvæmdir við yfirbyggingu laugarinnar þegar um haustið. Fyrirséð var að framkvæmdir myndu standa fram á árið 1953 og var því ákveðið að gera hlé á öllu starfi félagsins á meðan.”

 

Sundhöllin opnuð
“Þann 13. júní 1953 var svo Sundhöll Hafnarfjarðar opnuð og fékk félagið þá strax úthlutað föstum æfingatímum. Þar með var langþráðu takmarki náð og loks hægt að hefja kröftugt starf við uppbyggingu félagsins. Segja má að árin á eftir hafi verið samfelldur gróskutími og auðvitað ánægjulegt að taka þátt í félagsstarfinu við slíkar aðstæður. Hvað varðar árangurinn, þá lét hann ekki á sér standa og áttum við fljótlega sundfólk í fremstu röð. Við sendum til dæmis ellefu keppendur á Sundmeistaramót Íslands árið 1958 og árið eftir varð Sigrún Sigurðardóttir fyrst SH-inga til þess að setja Íslandsmet. Þegar ég huga um þennan tíma, koma bæjarkeppnirnar oft upp í hugann, en þær voru alltaf spennandi og skemmtilegar. Ég man til dæmis eftir fræknum sigrum á Akurnesingum og Keflvíkingum.”

 

Draumurinn rættist
Yngvi Rafn er fæddur og uppalinn á Hjalteyri við Eyjafjörð og segist alltaf hafa haft mikinn áhuga á íþróttum. “Sem strákur var ég mikið í íþróttum og þá aðallega á skíðum. Ég lærði að synda um fermingaraldur hjá Ólafi Magnússyni á Akureyri. Mig dreymdi alltaf um að verða íþróttakennari og stefndi að því leynt og ljóst. Sá draumur rættist árið 1947 en þá útskrifaðist ég frá Íþróttakennaraskólanum á Laugarvatni. Áður hafði ég stundað nám að Laugum í Þingeyjasýslu í tvo vetur, en þangað fór ég átján ára gamall. Eftir námið á Laugarvatni var ég við íþróttakennslu fyrir norðan þar til haustið 1948.”

 

Fyrir hreina tilviljun
-En hvað varð til þess að þú settist að í Hafnarfirði? “Það var eiginlega fyrir hreina tilviljun að ég settist að hér í Hafnarfirði. Ég var að hefja nám við Handíða og myndlistaskólann haustið 1948 en kom fyrir misskilning hálfum mánuði of snemma til Reykjavíkur. Ég þurfti þess vegna að fá eitthvað að gera á meðan ég beið þess að skólinn hæfist og ræddi málið við Þorstein Einarsson, íþróttafulltrúa ríkisins. Þú kemur alveg eins og kallaður sagði Þorsteinn því þá vantar mann suður í Hafnarfjörð til þess að sjá um rekstur sundlaugarinnar. Ég lét ekki segja mér það tvisvar og hélt suður í Fjörð þar sem ég ræddi við sundlaugarnefndina, en í henni sátu þeir Loftur Bjarnason, Ásgeir Stefánsson og Björn Jóhannesson. Það varð að samkomulagi að ég tæki starfið að mér en fengi að stunda skólann samhliða starfinu, en eins og fram hefur komið var laugin þá enn óyfirbyggð og aðeins opin frá apríl til október, en böðin aftur á móti allt árið.”

 

Hitað með kolum

Aðspurður um starfið við Sundhöllina sagði Yngvi Rafn: “Þetta var allt mjög frumstætt miðað við það sem er í dag. Fyrstu árin var notast við sjó og hann var hitaður upp með kolum en árið 1949 var því hætt og hreint vatn þá notað í laugina og olíufýring tekin í notkun. Árið 1953, eftir að byggt hafði verið yfir laugina, var rafmagnshitun síðan tekin í notkun og notast við hana þar til hitaveitan kom árið 1976. Auðvitað var það algjör bylting hvað varðaði rekstur Sundhallarinnar að fá hitaveituna og í kjölfarið var bætt við heitum pottum og ýmar endurbætur gerðar á húsnæðinu til þess að bæta aðstöðuna.”

Yngvi Rafn starfaði sem forstöðumaður Sundhallarinnar allt til ársins 1984, eða í alls 36 ár, en frá árinu 1971 starfaði hann jafnframt sem íþróttafulltrúi bæjarins, eða allt til ársins 1984, þegar hann hætti störfum. Hann var auk þess sundkennari við Barnaskóla Hafnarfjarðar frá árinu 1953 og síðan Flensborgarskóla frá árinu 1961, en þar kenndi hann sund í níu ár. “Ég kenndi óslitið alveg til ársins 1971, eða þar til ég bætti við mig stöðu íþróttafulltrúa. Eftir það eða frá árinu 1984, þegar ég hætti sem íþróttafulltrúi, tók ég svo aftur upp þráðinn við kennsluna og kenndi þá í átta ár í viðbót, svona til þess að klára skammtinn. Það má því segja að ég hafi starfað óslitið við íþróttir í 45 ár eða frá því ég útskrifaðist frá Laugarvatni árið 1947.

 

Á kaf í félagsstörfin
Eins og áður segir var Yngvi Rafn kosinn formaður SH árið 1950 og var formaður til ársins 1957, að starfsárinu 1953-´54 undanskildu, þegar Hjörleifur Bergsteinsson gengdi formennsku. “Ég var fljótlega kominn á kaf í félagsstörfin, en auk þess að vera formaður SH og sjá um þjálfunina með Guðjóni Sigurjónssyni, var ég kosinn í fyrstu varastjórn Sundsambandsins og sat þar alla stjórnarfundi. Ég sat líka um tíma í stjórn ÍBH (1951-´52) og tók þar síðan við formennsku árið 1960. Henni gengdi ég til ársins1968 að einu ári undaskildi, meðan Ólafur heitinn Þórarinsson var formaður frá 1964-´65. Eftir að Hörður S. Óskarsson kom til Hafnarfjarðar árið 1954 tók hann að mestu við þjálfuninni og við formennskunni árið 1957. Ég sat þó áfram í stjórninni til ársins 1960, ef ég man rétt, þegar ég tók við formennskunni hjá ÍBH.”

 

Framtíðin björt

Yngvi Rafn segist ennþá fylgjast vel með sundinu þó hann sé löngu hættur að sækja sundmót. “Maður fylgist með þessu í gegnum fjölmiðlana og ég viðurkenni að góður árangur SH-inga hlýjar mér virkilega um hjartarætur. Mér sýnist framtíðin björt hjá félaginu og starfið blómstrar enn, sérstaklega eftir tilkomu Suðurbæjarlaugarinnar árið 1989. Árangurinn hefur verið glæsilegur, en það verður kannski erfitt að toppa árangurinn frá árinu 2000 þegar fjórir SH-ingar voru meðal keppenda á Ólympíuleikunum í Sydney. En eins og þegar ég tók við formennskunni árið 1950 er ennþá verið að berjast fyrir bættri aðstöðu í tímans rás og vonandi að fyrirhuguð 50 metra laug á Völlum verði félaginu sú lyftistöng sem Sundhöllin varð á sínum tíma,” sagði Yngvi Rafn að lokum.

Erlingur Kristensson
6. mars 2007