1958-59

Þessi annáll eftir Yngva Rafn Baldvinsson var birtur í jólablaði Alþýðublaðs Hafnarfjarðar árið 1959.

 

Blómlegt starf hjá Sundfélagi Hafnarfjarðar
Sundfélag Hafnarfjarðar hefur haldið uppi mjög fjölþættum sundæfingum á undanförnum árum og er það eina íþróttafélagið í bænum sem það gerir. Hefur starfsemin farið sívaxandi og á sl. ári æfðu að staðaldri á annað hundrað unglingar á vegum félagsins í þremur aldursflokkum. Æft var þrisvar í viku í Sundhöll Hafnarfjarðar, við hin bestu skilyrði.

 

Sundmót og afrek

Félagar í SH hafa verið þátttakendur í öllum opinberum sundmótum sem haldin hafa verið í Reykjavík og Hafnarfirði á sl. ári.

Þegar litið er á afrek sundfólksins kemur í ljós að stór hópur sundmanna félagsins skipa sér nú þegar á bekk með bestu sundmönnum þjóðarinnar. Það er ekki hægt annað en staldra aðeins við einstaka nafn og afrek, sem sundfólkið hefur náð með mikilli ástundun og þrautseigju við æfingar sínar. Má þar fyrsta nefna hina kornungu og bráðefnilegu stúlku, Sigrúnu Sigurðardóttur (14 ára), sem á sl. ári setti hvorki meira né minna en 17 hafnfirsk kvennamet í bringusundi, sem jafnframt eru telpnamet. Á því ári varð hún Íslandsmeistari í 50 m bringusundi og númer tvö á afrekaskrá SSÍ í 200 m bringusundi og númer þrjú í 100 m bringusundi. Á þessu ári hefur hún enn haldið áfram að bæta afrek sín og varð nú í annað sinn Íslandsmeistari í 50 m bringusundi telpna. Hún hefur nú fyrst hafnfirskra kvenna , sett tvö glæsileg Íslandsmet, í 400 og 500 m bringusundi.

Í skriðsundi kvenna sýnir Hrafnhildur Sigurbjörnsdóttir mikla framför og setti á sl. ári tíu hafnfirsk skriðsundsmet, sem má teljast með ágætum. Tvíburasystir Hrafnhildar, Auður, sýnir og góð tilþrif í skriðsundi og baksundi, en hún setti þrjú sundmet á sl. ári. Þær systur eru afar jafnar í keppni þó Hrafnhildi takist oftar að skjótast framfyrir á síðustu metrunum.

 

Bringusund karla hefur um alllangt skeið legið mjög mikið niðri, en á sl. ári kom fram á sjónarsviðið ungur sundmaður, sem með frábærum dugnaði og elju hnekkti fyrri metum hverju af öðru, en sum þeirra höfðu staðið í sjö ár. Er hann nú kominn í fremstu raðir bringusundsmanna sem völ er á , en þetta er Árni Þ. Kristjánsson. Hann á nú öll hafnfirsk sundmet í bringusundi í 50. 100. 200, 400, 500 og 1000 metrum. Á þessu ári hefur hann oftsinnis synt 1000 m bringusund á betri tíma en gildandi Íslandsmet er, en hann mun ekki fá það staðfest vegna þess að það verður að synda það á lengri braut en 25 m.

Erling Georgsson hefur að undanförnu varpað ljóma á nafn sitt og félagsins fyrir góð afrek í skriðsundi drengja. Hefur hann tvívegis orðið Íslandsmeistari í 50 m skriðsundi drengja og á öll hafnfirsk sundmet í 50, 100 og 200 m skriðsundi. Auk þeirra sundmanna sem nú hafa verið nefndir má einnig geta Júlíusar Júlíussonar methafa í 400 og 1000 m skriðsundi, Sigurjóns Hannessonar methafa í 500 m skriðsundi og Kristjáns Stefánssonar methafa í 50 m baksundi. Allir ofangreindir félagar Sundfélags Hafnarfjarðar og margir fleiri hafa sýnt lofsverðan áhuga og hvorki sparað fé né fyrirhöfn til þess að geta náð sem bestum árangri í íþrótt sinni sjálfum sér, félagi sínu og bæjarfélaginu í heild til hins mesta sóma.

 

Sameiginlegir sigrar
Hafnfirðingar unnu Akurnesinga í bæjarkeppni sem háð var í Sundhöll Hafnarfjarðar 15. mars sl. með 47 stigum gegn 40. Keflvíkinga sigruðu þeir einnig í bæjarkeppni sem háð var í Sundhöll Keflavíkur 10. maí með 47 stigum gegn 41. Þeir sigruðu einnig sundfólk frá Knattspyrnufélagi Akureyrar (KA) á sundmóti sem háð var í Sundhöll Hafnarfjarðar 31. maí með 112 stigum gegn 64.

 

Dýfingar

Strax og dýfingabretti var sett upp í Sundhöll Hafnarfjarðar árið 1954 hóf SH kennslu í dýfingum og hefur að staðaldri haldið uppi kennslu í þessari fögru íþrótt. Hefur félagið einu sinni efnt til sýningar í dýfingum og var það á afmælismóti félagsins þegar það varð 10 ára, árið 1955. Sundknattleikur

Á sl. vetri hófust æfingar hjá SH. Tókust þær mjög vel. Æfingar hófust aftur nú í haust og virðast vera góðar horfur á því að sundknattleiksmenn geti tekið þátt í sundknattleiksmótum á þessum vetri.

 

Þjálfarinn
Hörður S. Óskarsson sundkennari hefur verið þjálfari félagsins síðan 1954. Hefur hann unnið þar mikið og gott starf og má þakka honum, öllum öðrum fremur, hvað sundfólkið hefur náð langt í íþrótt sinni. Hann sér um æfingar og þjálfar sundfólkið þrjú kvöld í viku frá kl. 19:30 – 22:00, eftir erfiða kennslu allan daginn. Þetta hefur hann gert án þess að fá nokkra þóknun fyrir. Á slíkri fórnfýsi einstakra manna hafa íþróttirnar vaxið og dafnað á undanförnum árum og er vonandi að þeir tímar komi að þeir fái meira en þakkirnar einar fyrir sín brautryðjendastörf.

 

Stórn félagsins skipa nú þessir menn:

Hörður S. Óskarsson, formaður
Garðar Sigurðsson, varaformaður
Erling Georgsson, ritari
Yngvi Rafn Baldvinsson, gjaldkeri
Árni Þ. Kristjánsson, fjármálaritari

Erlingur Kristensson skráði
08.09.2008