Fá orð um sund og sundkennslu
Grein um sund og sundkennslu eftir Högna Sigurðsson, sem birt var í “Skólapiltinum”- innanskólablaði Flensborgarskóla, árið 1894. Högni, sem var frá Vatnsdal í Vestmannaeyjum, var nemandi við skólann á árunum 1892-´95 og var einn fárra Íslendinga sem kunni að synda á þeim tíma.

 

Flensborg 1. des. 1894 Fá orð um sund og sundkennslu
Ég þykist vita, að allir okkar hafi heyrt að það hafa verið til menn og að þeir eru til enn, sem kunna sund, enda þótt sumir af okkur þekki ekki aðferðina til þess að komast áfram, á og í vatni. Svo sannarlega , sem glímur eru taldar gömul, gagnleg og skemmtileg list forfeðranna, þá má líka segja svo um sundið. Það er æfagömul list og hefur verið talin einhver hin besta og nytsamasta íþrótt. Það hefur verið tíðkað meðal allra þjóða, frá því sögur hófust, og það er líka þess vert. Það lífgar og hressir líkamann, eykur þrek og áræði, og verður mörgum manni til lífs, að ótöldum öðrum kostum, gagni og gamni er sundmaðurinn getur haft af íþrótt sinni. Forfeður vorir voru fullnuma í þessari kunnáttu og þykir enn í dag góð skemmtun, að lesa frásögn um Kjartan Ólafsson er hann lék á sundi við Ólaf konung Tryggvason, eða þá um Grettir, þegar hann reið sér fit og lagði til lands úr Drangey á vetrardegi og synti meir en viku sjávar.

Það er sagt að fyrir rúmum 70 árum hafi ekki verið fleiri en svo sem 6 menn á öllu landinu, sem voru sjálfbjarga ef þeir lentu í polli, sem þeir náðu ekki niðrí. Menn höfðu svo gersamlega gleymt öllu sundi, að ofurhugar báru grjót á sig og skriðu svo á botninum yfir ár og síki, sem ekki voru of breið, en engin leitaðist við að neyta léttleikans og fara samkvæmt eðli sínu ofan vatns, þó það væri þúsund sinnum hægara. Nú eru menn aftur farnir að temja sér sund, eins og forfeðurnir gerðu, og flestir ungir og fjörugir menn munu fá löngun til að læra þessa list, þegar þeir sjá aðra leika hana.

Hvað sundkennsluna sjálfa snertir vil ég geta þess, að hún er ekki eins almenn hér á landi eins og æskilegt væri. Að vísu má það til sanns vegar færa, að hvorki eru sundkennarar fyrir hendi sumstaðar né góðir baðstaðir. En hitt á sér þó fremur stað, að víða er þannig lagað, að hægt er að læra sund t.d. í vötnum og tjörnum, sem verða oft volgar, þegar heitt er á sumrum, og líka í sjónum.

Auðvitað eru volgar laugar bestar, en óvíða er völ á þeim. Í sjó er best að fara að áliðnum degi (í heitu veðri) og helst um flóð og ekki á grynnra en 2ja álna dýpi, því þar er sjórinn seltumeiri, heldur en grynnra, og er því hægara að halda sér uppi, en í vatni veitist það erfiðara.

Svo að ég minnist líka á sundkennarana, skal þess getið að menn geta lært af sjálfum sér að synda, ef reglur eru til fyrir því. Ég meina náttúrlega, að menn læri að halda sér uppi, og baksund og svo bryngusund með höndum og fótum og jafnvel straumsund. Þótt menn læri nú ekki annað en þetta, getur það orðið til þess að menn geti bjargað sér á stuttri leið. Þessi sundtök má eins kenna á þurru landi eins og í sjó eða vatni.

 

Nemendur í Flensborg 1892

Víða í öðrum löndum eru sundkennsluskólar, og þar lærir kvenfólk eins að synda, eins og karlmenn, og best þykja þeir synda sem læra það í æsku. Ég ætla ekki að svo stöddu að tala meira um þetta mál.

Ég ímynda mér að allir hafi skilið mig og ég vona að hver og einn fjörugur piltur, sem ann listum forfeðranna og ekki vill að þær hverfi í gleymskunnar sæ, unni líka framförum nútímans, og geri það sem hann getur til að breiða út þessa list, því hún er fyrst og fremst ágætt heilsumeðal, og margir hafa bjargað lífi sínu með sundi, er það hafa kunnað. Þessi list er sannarlega þess verð að henni sé gaumur gefinn. Munið eftir því góðu piltar.

Högni Sigurðsson

PS. Þetta er það elsta sem grúskarar “Söguhornsins” hafa grafið upp um sundíþróttina hér í Hafnarfirði, en fljótlega eftir að Högni hóf nám við Flensborgarskóla var hann fenginn til þess að kenna skólapiltum sund og segjum við frá því annars staðar hér í “Söguhorninu”.

Fróðleikur: Nemendur í Flensborgarskóla gáfu fyrst út skólablaðið “Skólapiltinn” veturinn 1891-´92 og var það síðan gefið út á hverjum vetri í rúm 40 ár – mismörg tölublöð á vetri. Vatnsdalur fór undir hraun í Heimaeyjargosinu 1973.

Athugasemd frá Huldu Sigurðardóttur
Gaman að lesa þetta. Högni Sigurðsson var afi minn. Þið vitið hvernig hann kenndi nemendum sundtökin á þurru landi. Það veit ég, ef þið vitið það ekki get ég sagt ykkur það. Högni samdi skólasöng við útskrift stúdenta við Flensborg. Ef einhver hefur áhuga, á ég bæði texta og nótur. Högni var vel hagmæltur og er textinn geysilega vel saminn. Kveðja, Hulda Sigurðardóttir, [email protected]

Erlingur Kristensson