Ættfaðirinn í sundinu - Ólafur Guðmundsson
Flestir sundmenn og sundáhugamenn þekkja hann af bakkanum þennan gráhærða grannvaxna mann því að hann hefur tekið að sér hlutverk ræsis eða dómara í nokkra áratugi. Enda engin furða. Hann er ættfaðir sundfjölskyldunnar í Hafnarfirðinum.

Ólafur Guðmundsson hefur átt langa samleið með Sundfélagi Hafnarfjarðar. Með einum eða öðrum hætti. Þegar við hefjum spjallið á skrifstofu SH eitt kvöldið í maí rifjar hann upp að árið 1967 hafi þáverandi formaður SH, Trausti Guðlaugsson, haft samband við sig þegar hann var hættur í lögreglunni og byrjaður í tryggingabransanum, sagt sér að upplausn væri komin í félagið og að SH vantaði þjálfara. Ólafur hafði æft sund með ÍR frá 1943 þegar Jónas Halldórsson ”sá mig hamast í lauginni, stinga mér og keppa og jafnvel að vinna stráka sem hann var að þjálfa. Hann bauð mér að koma og æfa með þeim og ég gerði það,” segir Ólafur.

Staðan í sundinu var nokkuð góð á þessum árum þó að hún væri ekki jafn langt komin og í dag. Sundmennirnir fóru í gegnum allt öðruvísi æfingar á þessum tíma og náðu aldrei sama hraða og í dag. ”Við fengum einn og hálfan tíma þrisvar í viku. Það var allt og sumt. Við æfðum svo frjálsar íþróttir með til að styrkja okkur. Þetta var að eigin vali. Ég vann fulla vinnu allan tímann þegar ég var að æfa. Ég tók æfingarnar mjög alvarlega, þjálfararnir höfðu þannig áhrif á mann. Við tókum þátt í mörgum mótum, þar á meðal stórmótum, eins og gert er í dag. Það kom fyrir að erlendum sundmönnum var boðið hingað heim.”

 

Ólafur og Trausti

 

Varð óvart fyrstur
Árið 1948 keppti Ólafur til úrslita um að komast á Ólympíuleikana í London og munaði ekki nema einum tíunda úr sekúndi að hann kæmist áfram í 100 m baksundi. ”Eftir landskeppni við Norðmenn í Sundhöllinni í Reykjavík var okkur landsliðsmönnunum boðið á Ólympíuleikana. Ég var með þriðja besta tímann í 100m baksundi og hafði álpast til að vera fyrstur í landskeppninni. Stelpurnar sem áttu að ná sigri töpuðu óvænt fyrir norsku stelpunum. Það fór í taugarnar á mér svo að ég vildi gera eitthvað almennilegt. Sigur minn má þakka manni sem nú er látinn. Hann steytti hnefann framan í mig á laugarbakkanum fyrir síðustu ferð svo að ég fór á fulla ferð. Ég var í þriðja sæti þegar þarna var komið en náði forystunni og kom óvart fyrstur í mark.”

Ólafur segist að sér líði í vatni nánast eins og hann sé ”fæddur í því. Ég var alltaf að leika mér í gömlu Laugardalslauginni sem var steinhlaðinn pollur við hliðina á stóru lauginni núna. Ég fór þangað mikið með pabba mínum sem strákur. Við hjóluðum þá neðan úr bæ inn í Laugarnes. Ég var eins og fæddur til að vera í vatni. Sama hefur gilt um krakkana mína, Ödda og systur mínar. Systir mín Hrafnhildur var lengi vel sunddrottning landsins og börnin hennar, Magnús Már, Bryndís, Hugrún og Arnar Freyr, voru fremstu sundmenn landsins í mörg ár. Þetta var eitthvað í okkur krökkunum, vatn var okkar heimavöllur. Og þetta hefur sem betur fer gengið í gegn með eftirkomendur okkar Hrafnhildar, börn og barnabörn. Ekkert af mínum krílum er hrædd við vatn.”

 

Setti Íslandsmet fyrir Hauka
Ólafur var fluttur til Hafnarfjarðar og búinn að synda með SH í bæjarkeppni þegar hann var beðinn um að taka að sér þjálfun félagsins en var ekki genginn í SH þegar það var. ”Ég var aðallega Haukamaður og í fyrsta sinn sem ég keppti í bæjarkeppni synti ég 50m baksund fyrir Hauka og setti Íslandsmet,” segir hann.

Hátt í 20 krakkar voru í fyrsta hópnum sem Ólafur þjálfaði, prúðir og áhugasamir krakka frá 12 ára og upp úr. Ólafur segist hafa barist mikið fyrir því að fá fleiri tíma til að þjálfa krakkana en ekki fengið. Það hafi engu tauti verið við íþróttafulltrúann komið. Ólafur segist hafa byggt æfingarnar upp með aðstoð bandaríska íþróttablaðsins Swimming World. ”Ég tók æfingaprógrömmin út úr þessu blaði og bætti við æfingum og hugmyndum frá mér til að fá meira út úr þessu. Á tímabili hefðu fimm af krökkunum verið landsliðsmenn ef út í það hefði verið farið. Guðjón Guðnason, synir mínir, Örn Ólafsson og Guðmundur Ólafsson, sem dó 37 ára gamall úr hvítblæði, Vilborg Sverrisdóttir og Jón Hauksson. Það var ekkert formlegt landslið en Vilborg var best af stelpunum og hún hefði verið í því.

 

Þjálfaði Blikana
Ólafur var í hópi sundþjálfara sem fór með 30 krakka í æfinga- og keppnisferð til Þýskalands árið 1972. ”Við fórum að heimsækja vinafélag Ægis, sundfélag í Darmstad í Þýskalandi. Við tókum þátt í tviemur sundmótum og vorum þarna í átta daga. Þetta var heilmikið ævintýri og krakkarnir stóðu sig stórkostlega vel, sópuðu að sér verðlaununum svo að Þjóðverjarnir urðu argir út í okkur. Þegar við komum heim var haldið Sundmeistaramót Íslands í Laugardalslauginni. Það hitti svo skemmtilega á að krakkarnir úr Hafnarfirði slógu í gegn á þessu móti og því tel ég að fimm af okkar sundmönnum hafi í raun náð landsliðssæti. Þau hirtu fyrstu verðlaun í sínum greinum. Það var virkilega gaman.”

Ólafur hætti þjálfuninni hjá SH haustið 1976, um svipað leyti og Vilborg fór á Ólympíuleikana í Kanada. ”Ég taldi að mér veitti ekki af þeim litla tíma sem félagið hafði í sundlaug bæjarins undir sundæfingar,” segir hann. Ólafur fékk tilboð frá Breiðablik þetta haust og ákvað að taka að sér þjálfun þar. Hann hafði aldrei tekið krónu fyrir þjálfunina hjá SH en nú fékk hann allt í einu greitt fyrir vinnu sína. ”Ég gat ekki neitað því að fara þangað í smá tíma. Ungmennafélagsmót stóð fyrir dyrum á Selfossi og Blikarnir vildu þjálfa sitt fólk almennilega en höfðu ekki haft þjálfara til þess.”

Ólafur var tvo vetur hjá Breiðablik. Eftir það hætti hann og fór á sjóinn. Krakkarnir hans héldu áfram að æfa sund og synda ennþá með elsta aldurshópnum, görpunum. Sjálfur hefur hann verið meira og minna tengdur við sundið, bæði sem dómari og ræsir, hér á höfuðborgarsvæðinu og úti á landi.

 

Sundgen í ættinni
Ólafur segir þau hjónin alltaf hafa fylgst með sínum krökkum í sundinu og yfirleitt sé meginhluti fjölskyldunnar á sundmótum. ”Þetta hefur verið okkar lífsstíll, börnin hafa fylgt mér í sundinu og svo hafa þau fylgt sínum börnum eftir. Eldri Örn þjálfaði sína krakka í sundinu og núna er hann með barnabörnin, tvær litlar stelpur, á fullri ferð. Þær verða ábyggilega sundkonur þegar fram í sækir. Þær eru fullar áhuga,” segir hann.

Foreldrar Ólafs voru ekki í sundi en hann viðurkennir að það sé alltaf verið að tala um að það hljóti að vera einhver sundgen í ættinni. ”Ég byrjaði á þessu sem elsta barn foreldra minna. Mér var létt að fara í vatnið og var syndur eiginlega um leið og datt í vatnið, vissi einhvern veginn hvernig ég átti að halda mér á floti. Systkini mín fylgdu mér eftir. Og frændfólkið líka. Ég hef trú á að þetta sé úr móðurættinni, móðir mín var ansi spræk sem íþróttakona í sveitinni sinni á sínum tíma. Pabbi var aðallega áhugamaður um fótbolta en ég veit ekki til að hann hafi spilað fótbolta. Þau komu bæði á sundmót þegar við vorum að keppa og það er plús að þau fylgdust með okkur. Það lærði ég í Þýskalandi, foreldrarnir voru með börnunum. Þau komu kannski daginn áður og tjölduðu á stóru túni kringum laugarnar eða fóru á gistiheimili.”

Þegar hann er spurður að því hvað þurfi til árangurs í sundinu í dag segir hann að sterkustu sundmenn séu 180-200 sentimetrar á hæð, ”fótstórir eins og tundurskeytið í Ástralíu, Ian Thorpe. Hendurnar eru spaðarnir og þær þurfa að vera stórar og svo þurfa þeir að vera mjúkir í ökklum þannig að ristin geti spyrnt og iljarnar líka. Ef ökklinn er stífur þá nær sundmaðurinn aldrei góðum fótatökum. Þetta er stórt atriði. Svo er eitt, að kunna að slappa af í vatni. Þeir vatnshræddu verða stífir og eiga erfitt með að halda sér á floti,” segir hann.

 

Ættartréð:

 

Ólafur Guðmundsson og Unnur Ágústsdóttir
A. Erling náttúrufræðingur, kona hans Margrét Sigurgeirsdóttir kennari.
- Þröstur tölvufræðingur
- Gígja nemi í hjúkrunarfræði
- Víðir matreiðslunemi

B. Ingibjörg Svala húsmóðir. Maður hennar Björgvin Björgvinsson húsasmiður. Æfa og keppa bæði sund með görpum.
- Unnur Ósk húsmóðir. Maður: Guðmundur Jóhannsson bakarameistari. Þau eiga þrjá unga drengi.
- Eva Dís húsmóðir. Maður: Óttar Karlsson slökkviliðsmaður. Þau eiga tvö ung börn.
- Heiðrún, barnfóstra í Bandaríkjunum.
- Elísa Björg, nemi og handboltakona.
- Björgvin Guðmundur, nemi og sundmaður.

C. Guðmundur, verkamaður. Hann er látinn.
- Lísabet, nemi í fornleifafræði við HÍ.
- Þórunn verslunarmaður.

D. Örn vélvirki. Kona hans Kristín Jensdóttir fiskvinnslukona.
- Ólöf, meinatæknir og fv. sundkona. Maður hennar Kristján Sigurðsson húsasmiður. Dætur þeirra: María Fanney og Sandra Dögg sem eru í sundlæri hjá afa sínum.
- Örn, landsliðsmaður í sundi, nemi og starfsmaður SH.
 - Erla, nemi og sundkona.

E. Friðrik, framkvæmdastjóri Meistarafélags iðnaðarmanna og húsasmíðameistari. Kona hans er Erna Ómarsdóttir, starfsmaður SPH.
- Ómar, húsasmiður, sundþjálfari og fv. landsliðsmaður í sundi.
- Sindri, nemi og sundmaður. -
 Berglind, nemi og sundmaður.

F. Kolbrún, skrifstofudama. Hennar maður: Hilmar Halldórsson, grafískur hönnuður.
- Ester húsmóðir. Hennar maður: Valdimar Arnarson bílstjóri. Þau eiga tvö ung börn.
- Ólafur, húsasmiður.
- Helga, nemi í listum.
- Daníel, nemi. 

Guðrún Helga Sigurðardóttir
7. mars 2007