SH-ingar ķ sjósundi

Það hefur lengi tíðkast á Íslandi að stunda sjósund eða sjóböð eins og sumir vilja kalla það. Grettir Ásmundarson er sennilega einn frægasti sjósundmaður Íslendinga fyrr og síðar fyrir Drangeyjarsund sitt en einnig má minnast á Kjartan Ólafsson sem lék á sundi við Ólaf konung Tryggvason. Það sem færri kannski vita er að undanfarin ár hefur hópur SH-inga stundað sjósundæfingar frá ylströndinni í Nauthólsvík allt árið um kring. Þar eru aðstæður ákjósanlegar og sjórinn hreinn og fremur lygn. Hitastig sjávar er frá 0 gráðum upp í allt að 12 gráður og myndi mörgum finnast nóg um að fara í 12 gráðu heita sundlaug en þess má geta að hitastigið í flestum laugum landsins er í kringum 28-30 gráður.

Þeir SH-ingar sem stunda sjósund gera það sér til skemmtunar, vegna félagsskaparins og til þess að bæta líkamlegt atgervi og þol. Ýmsar kenningar hafa verið uppi um ágæti sjósunds og efast fáir um að það bæti og efli ónæmis- og æðakerfi líkamans. Fjölmargir sjósundsmenn geta staðfest þetta og hafa kennt sér einskis meins síðan þeir byrjuðu að stunda sjósund. Meginreglan er þó sú að fara ekki of geyst í byrjun og ofreyna ekki líkamann heldur byggja upp þolið hægt og rólega. Í Sundreglum sem Jónas Hallgrímsson íslenskaði árið 1836 segir: „Varast skyldu óvanir að vera nema örlitla stundi niðrí og busla þó vel á meðan, til þess að standa í móti kuldanum. Þegar upp úr kemur, sem optast er undir berum himni, ríður á að keppast vel við að þurka sjer og koma sjer í fötin; hreifa sig síðan vel á eptir góða stund, nema þvíheitara sje í veðri“ (Jónas Hallgrímsson, 1836, bls. 44-45). Miðað við lýsingu Jónasar er vissara að fara varlega í byrjun og nýliðum er bent á að synda mest við ströndina þar sem þeir ná til botns.

Æfingar SH-inga eru allt upp í fimm skipti í viku og er þá synt fram og til baka um Fossvoginn og getur heildartíminn orðið allt að einni klukkustund ofan í sjónum. Allt að 10 SH-ingar hafa synt saman í sjónum og er það örugglega einsdæmi að svo margir félagar í sama félagi hafi lagt í sjósund. Hin síðari ár hafa þó sumir SH-ingana stefnt á lengri sund, t.d. Viðeyjarsund, Þingvallasund, Drangeyjarsund, Hvalfjarðarsund og Vestmannaeyjasund.

Þeir sundmenn sem ruddu brautina fyrir lengri sundin voru Kristinn Magnússon og Fylkir Sævarsson. Þeir urðu t.a.m. fyrstir Íslendinga til þess að synda út í Viðey, skrifa í gestabókina og synda til baka. Seinasta sumar bættust tveir SH-ingar í þann hóp, Hrafnkell Marinósson og Steinn Jóhannsson. Kristinn hefur synt manna lengst en árið 2003 synti hann Vestmannaeyjasund (16 km) við fremur erfiðar aðstæður en um 1,5 metra ölduhæð var á leiðinni. Fylkir var fyrstur til þess að synda yfir Þingvallavatn en þar er hitastigið nokkru lægra en í sjónum og vatnið þyngra þar sem það er ekki salt. Seinna bættist Kristinn svo í þann hóp manna sem hefur synt yfir vatnið.

Það er líklegt að fleiri hafa hug á að stunda sjósund í sumar. Líkt og Jónas Hallgrímsson ritaði: „Þá sjaldan er menn lauga sig hjer á landi, er það helzt í sjó, heitan sumardag. Það er hin handhægasta laug og kostnaðarminnsta“ (Jónas Hallgrímsson, 1836, bls. 42-43).

Steinn Jóhannsson og Hrafnkell Marinósson