Þeir ruddu brautina

“Bara byrjið þið, þá kemur það”
Gísli heitinn Sigurðsson, íþróttafrömuður og fyrsti formaður Sundfélags Hafnarfjarðar, ritaði grein í jólablað Alþýðublaðs Hafnarfjarðar árið 1965 þar sem hann rekur sögu Sundfélags Hafnarfjarðar fyrstu tuttugu starfsárin, en félagið var stofnað 19. júní árið 1945 tæpum tveimur árum eftir að sundlaugin við Krosseyrarmalir var vígð.

Um aðdragandann að stofnun félagsins segir Gísli: “Laust fyrir 1930 mun því máli fyrst hafa verið hreyft, að koma þyrfti upp sundlaug hér í Hafnarfirði. Á árunum 1935 og ´36 var allmikil hreyfing uppi um þetta mál, en það strandaði á góðvilja ýmissa stórmenna. Það var því ekki fyrr en á fyrstu árum síðari heimsstyrjaldarinnar, að menn komu fram, sem höfðu bein í nefi, að hrinda þessu þrifamáli í framkvæmd. Voru það þeir, Ásgeir G. Stefánsson, Loftur Bjarnason, Guðmundur Gissurarson og Grímur Kr. Andrésson. Þessu máli lauk með því, að sundlaugin var vígð 29. ágúst 1943.”

 

Nauðysyn að stofna sundfélag

Í kjölfarið fóru að heyrast raddir í bænum um nauðsyn þess að stofna sundfélag. Það hafði reyndar verið reynt áður, en gefum Gísla orðið: “Stofnun sundfélags í Hafnarfirði hafði verið hreyft eitt sinn. Það mun hafa verið 1925, að Jakob A. Sigurðsson boðaði til fundar og reyndi að stofna sundfélag. En tilraun þessi fór út um þúfur. Nú þegar sundlaugin var upp risin, þó ekki væri hún yfirbyggð, þá fóru að heyrast raddir um, að nauðsynlegt væri að stofna sundfélag. Opinberlega var þessu fyrst hreyft á stofnfundi Íþróttabandalags Hafnarfjarðar. Var þar á ferð með tillögu Hermann Guðmundsson og fleiri.”

Í 50 ára afmælisriti ÍBH frá árinu1995, segir að á stofnfundi bandalagsins, sem haldinn var 28. apríl 1945, hafi þrjár tillögur sem stjórn Hauka og Gísli Sigurðsson lögðu fram verið samþykktar samhljóða. Tvær þeirra fólu í sér kröfur um bætta aðstöðu íþróttafólks í Hafnarfirði en sú þriðja var áskorun til íþróttafélaganna í bænum um að stofna sunddeildir eða ef ekki gæti orið af því, að stjórn ÍBH stæði fyrir stofnun sérstaks sundfélags.

 

Söfnunarlisti meðal ung fólks

Um þetta segir Gísli: “Var það meining flutningsmanna að stjórn ÍBH gengist fyrir þessu. Stjórnin vísaði þessu frá sér. Það varð til þess, að í júnímánuði var farið út með söfnunarlista undir þá málaleitan, hvort ungt fólk væri fúst til að gerast félagar í væntanlegu sundfélagi. Þetta bar þann árangur, að um miðjan mánuðinn voru komin á lista um 235 nöfn. 19. júní, á kvenfrelsisdaginn, var svo boðað til fundar í húsi Sjálfstæðisfélaganna í Hafnarfirði. Húsið var troðfullt og mikill áhugi. Meðal fundarmanna voru forseti ÍSÍ, Benedikt G. Waage og Erlingur Pálsson, sundkappi, yfirlögregluþjónn í Reykjavík. Árnuðu þessir menn félaginu heilla og góðrar framtíðar.”

Þar með var Sundfélag Hafnarfjarðar formlega stofnað en fyrstu stjórn félagsins skipuðu þau Gísli Sigurðsson, formaður, Grímur Kr. Andrésson, varaformaður, Jón Mathiesen, ritari, Jón Pálmason, gjaldkeri og Soffía Benjamínsdóttir, fjármálaritari.

 

Laugin var opin


Gísli segir að stjórnin hafi strax ráðið Guðjón Sigurjónsson sem sundkennara og fengið æfingaleyfi í sundlauginni. “Gekk starfsemin allvel og var um haustið stofnað til sundmóts fyrir Hafnarfjörð. Við stofnun Sundfélagsins hafði Fimleikafélag Hafnarfjarðar stofnað sunddeild innan sinna vébanda. Mátti því segja, að allgóður áhugi væri vakinn fyrir sundiðkun, var það auðvitað ekki vonum seinna, þar sem upp var risin í Hafnarfirði sundlaug allgóðAðalóþægindin voru það, að hún var opin. . Þá var hitaður sjór notaður. Það að sundlaugin var opin dró mjög úr aðsókn, er kólna tók í veðri, og sjórinn reyndist ekki eins vel og ætlast hafði verið til, því hann brenndi sundur leiðslur og hitakatla. Stundum var aðeins helmingur laugarinnar hitaður og stundum varð að loka henni.”

Um starfsemi Sundfélagsins fyrstu árin segir Gísli. “Sundfélagið reyndi eftir megni að hvetja menn til að sækja laugina, en þessar aðstæður voru ekki hagkvæmar. Stjórn þessi sem fyrr er nefnd var lítið breytt fram til 1950. Grímur Andrésson hafði þá verið formaður í þjú ár. Um þetta leyti réðst að sundlauginni Yngvi Rafn Baldvinsson, áhugasamur maður með afbrigðum.

Á fundi sem haldinn var í desember 1950, var því hreyft, hvort ekki væri vænlegt að fela ungum mönnum og áhugasömum, sem þá voru að vaxa upp í félaginu, forystu félagsins. Þessu var tekið báðum höndum af stjórninni. Var því ný stjórn kosin, og hlutu þessir kosningu: Yngvi Rafn Baldvinsson, formaður, Guðjón Sigurjónsson, varaformaður, Sigríður Guðbjörnsdóttir, ritari, Hjörleifur Bergsteinsson, gjaldkeri og Garðar Sigurðsson, fjármálaritari.

 

Aðstæður hömluðu framgangi sundsins

Það sýndi sig þegar í upphafi að þarna voru komnir réttir menn til starfa fyrir félagið. Þar sem aðstæður hömluðu allmjög framgangi sundsins, var að því horfið að fá að senda nokkur efnilegustu ungmennin til náms í Sundhöll Reykjavíkur. Var þetta auðsótt mál við forstöðumenn þar, og kennarinn var ekki af verri endanum, Jón Pálsson, hinn þekkti sundkennari og sundgarpur. Unga fólkið sótti sundið af kappi og svo var komið 1951, ári seinna, að sundfélagið sendi þrennt til þátttöku á sundmóti, þar sem landið allt mætti Reykjavík til keppni. Garðar Sigurðsson synti 100 m skriðsund, Bjarni Kristmundsson 100 m baksund og Gréta Jónsdóttir 50 m bringusund.”

Eitt helsta baráttumál Sundfélagsins á þessum árum var yfirbygging sundlaugarinnar. Um það segir Gísli. “Ekki man ég nú hvenær fram kom tillaga um yfirbyggingu sundlaugarinnar, en snemma gerði Sundfélagið þá tillögu að sinni.

Í sambandi við yfirbyggingu sundlaugarinnar er vert að geta eins manns, sem þó er og hefur ekki verið meðlimur félagsins, en það er Björn stórkaupmaður Ólafsson í Reykjavík. Þegar byggja átti yfir laugina, voru hömlur á ýmsu efni og fjárfestingar takmarkaðar. Fóru því nokkrir menn á fund Björns, sem þá var fjármálaráðherra. Hann tók vel í málið og sagði þessa gullvægu setningu: “Bara byrjið þið, þá kemur það”. Þetta var gert þrátt fyrir að leyfi voru ekki öll fyrir hendi og upp reis Sundhöll Hafnarfjarðar, fagurt og mikið mannvirki. Reyndar varð að hafa bið á sundkennslu meðan á verkinu stóð, en það tók tvö ár. Þrátt fyrir þetta hélt félagið uppi þeim hætti, að senda fólk til æfinga í Sundhöll Reykjavíkur, og Jón Pálsson hélt áfram að þjálfa þetta fólk, með þeim árangri að það gat tekið þátt í mörgum mótum og staðið sig vel.

Sú stjórn, sem við tók 1950, stóð við stýrið allt fram til 1957, nær óbreytt. Verður ekki annað sagt en að henni færist stjórnin vel úr hendi. Lítill vottur er það, að á afmælisárinu, þegar félagið var tíu ára, settu félagarnir 19 hafnfirsk sundmet, og voru flestir undir þrettán ára aldri. Þjálfarar á þessu tímabili, eftir að byggt hafði verið yfir sundlaugina, voru þeir Yngvi Rafn Baldvinsson og Hörður Óskarsson, sem þá var starfsmaður sundlaugarinnar.”

Það má með sanni segja að þetta unga fólk, sem tók við af þeim sem ruddu grýtta brautina, hafi lagt grunninn að því blómlega starfi sem nú er hjá Sundfélagi Hafnarfjarðar, en starf brautryðjendanna, með Gísla Sigurðsson og félaga í broddi fylkingar, verður seint fullþakkað. Þeir létu drauminn rætast og skiluðu félaginu, eins og Gísli segir, í hendur ungra og áhugasamra manna, sem þá voru að vaxa upp í félaginu.

EK
2. apríl 2007