SH er aftur Fyrirmyndarfélag ÍSÍ 08.12.2024

Laugardag, 7.12., var stór dagur hjá Sundfélagi Hafnarfjarðar þegar Andri Stefánsson framkvæmdastjóri ÍSÍ veitti SH viðurkenningu sem Fyrirmyndarfélag ÍSÍ á jólamóti SH að viðstöddum fulltrúum frá ÍBH og SSÍ.

SH varð fyrst allra íþróttafélaga í Hafnarfirði til að fá viðurkenninguna í apríl  2004 og aftur í mars 2009. Nú á haustmánuðum var farið í mikla vinnu við að sækja um viðurkenninguna að nýju.

SH heldur uppi metnaðarfullu íþróttastarfi sem hefur skilað sér í fjölda viðurkenninga og verðlauna auk þess sem SH hefur verið í fremstu röð í sundíþróttinni í mörg ár.

SH átti fulltrúa á Ólympíuleikunum árin 1976 og 1988. Þá hefur SH hefur átt sundmenn á Ólympíuleikunum óslitið frá árinu 1996 til ársins 2024, eða átta Ólympíuleika í röð sem segja má að sé einstakt afrek hjá félagi á Íslandi þó víðar væri leitað. Einnig hefur SH átt fulltrúa á Ólympíuleikum fatlaðra eða árin 1992, 1996, 2012, 2020 og 2024.

Að vera fyrirmyndarfélag er mikil viðurkenning fyrir SH og allt starfið sem unnið er þar og SH er stolt að geta kallað sig aftur fyrirmyndafélag ÍSÍ.