Sunddrottningar og sundkóngar

Eftirfarandi grein var birt í 30 ára afmælisriti FH árið 1959

 

Fyrsta sundmót Hafnarfjarðar
Fyrsta sundmót Hafnarfjarðar var haldið í tilefni af eins árs afmæli sundlaugarinnar árið 1944. Fimleikafélagi Hafnarfjarðar var falið að sjá um mótið. – Sund hafði ekki verið iðkað hér í Hafnarfirði, svo nokkru næmi, enda skilyrði lítil sem engin til þess, því sund var iðkað í sjónum og því ekki um æfingar að ræða nema um hásumarið. – Sundkeppnir höfðu þó verið háðar hér og fór ein þeirra fram í sjónum fyrir framan Íshús Hafnarfjarðar og einnig var keppt í sundi við gömlu hafskipabryggjuna og synt í áttina að nýju hafskipabryggjunni.

 

Þegar FH var falið að sjá um fyrsta Sundmót Hafnarfjarðar, var lítið farið að æfa sund í lauginni sem keppnisíþrótt. – Félögin áttu þó fólk innan vébanda sinna, sem hafði iðkað sund og þá helst í framhaldsskólum í Reykjavík. Einnig voru bræðurnir Halldór og Jón Haukur Baldvinssynir og Gunnar Þórðarson meðlimir í FH, en allir höfðu þeir um árabil verið í fremstu röð sundmanna landsins og unnið til fjölda verðlauna, en þeir kepptu allir fyrir sundfélagið Ægi, áður en þeir fluttust hingað til bæjarins. – Þetta fyrsta Sundmót Hafnarfjarðar fór hið besta fram og var mikil þátttaka í öllum greinum. FH bar sigur af hólmi í flestum greinum.

Grímur heitinn Andrésson hafði gefið fagra bikara til að keppa um í 200 m sundi kvenna og karla. Bikurum þessum fylgir samkvæmt reglugerð sæmdarheitið Sunddrottning og Sundkóngur Hafnarfjarðar. – FH-ingar unnu þessa bikara á þessu fyrsta móti. Sunddrottning Hafnarfjarðar 1944 varð Þorgerður Gísladóttir FH, en Sundkóngur Halldór Baldvinsson FH.

 

Árið eftir stofnaði Gísli Sigurðsson Sundfélag Hafnarfjarðar, og næstu tvö árin eru það FH og Sundfélagið, sem senda þátttakendur til mótsins. – FH-ingar báru bæði árin sigur af hólmi og unnu flestar greinar mótsins. 1945 varð Þorgerður Gísladóttir aftur Sunddrottning Hafnarfjarðar og Gunnar Þórðarson, sundkóngur Hafnarfjarðar. – Árið 1946 vinna FH-ingarnir, Sigrún Sigurbjörnsdóttir sunddrottningarnafnið en Björn Eiríksson sundkóngsnafnið.

Eftir 1946 fellur Sundmót Hafnarfjarðar niður í nokkur ár, og varð það til þess að FH hætti að æfa sund, enda stór efi á, að eðilegt sé að tvö sundfélög séu starfandi í bænum.

Þessi þrjú ár, sem FH sendi keppendur til Sundmóts Hafnarfjarðar, verða þá ávallt minnisstæð þeim, er tóku þátt í þeim, því að keppnin var mikil og hörð – og stolt hvers FH-ings að vera með FH-merkið í sundfötum sínum.

Erlingur Kristensson skráði
12. október 2008