Frá stjórn Sundfélags Hafnarfjarđar: Af gefnu tilefni 12.05.2020

Nú erum við að ganga í gegnum tíma sem við höfum ekki upplifað áður og margt hefur breyst og ýmislegt bannað sem þótti sjálfsagt áður. Þetta ástand kemur við okkur öll, ekki síst okkur sem störfum í íþróttahreyfingunni. 

Við hjá Sundfélagi Hafnarfjarðar höfum heyrt af ýmsum sögum og orðróm um að við værum að brjóta reglur í samkomubanni. Við eins og aðrir reynum að hugsa í lausnum í þessu ástandi og þá sérstaklega þegar sundlaugum var lokað. Varð það úr eftir samtal frá SH, komu reglur frá Hafnarfjarðarbæ, um hvað við máttum gera.

Við máttum hafa æfingar fyrir fimm sundmenn, það ætti að vera einn í einu í lauginni og þessir fimm sundmenn máttu ekki vera á sama tíma í húsinu. Sundmaður átti að koma tilbúinn á bakkann, ekki nota búnings- eða sturtuklefa. Þau máttu bara koma á meðan starfsmenn voru í lauginni og enginn þjálfari.

Þegar ákvörðun um þetta var tekin var ekki búið að fresta eða fella niður; Ólympíuleika, EM, EMU eða NÆM.

Var því ákveðið að þeir sundmenn sem væru með lágmörk á stærstu mótin fengju að nota þessa tíma. (Hefðum við viljað að allir þeir sem höfðu lágmörk á þessi mót fengju að nota aðstöðuna hjá okkur en því miður þá voru okkur settar þröngar skorður). Síðar var öllum mótum frestað og þessum æfingum var í framhaldinu sjálfhætt fyrir páska þar sem Hafnarfjarðarbær fór í framkvæmdir í öllum sundlaugum bæjarins.

Eins og áður segir þá erum við að upplifa tíma sem eiga sér engin fordæmi og erum við því að gera hluti sem við höfum aldrei gert áður og er því ekki hlaupið frá því að gerð séu einhver mistök eða eitthvað rangt. Við erum þá á því að við höfum ekki brotið nein sóttvarnalög eða samkomubann. Við höfum orðið vör við að margir séu að velta þessu fyrir sér, sem er ekki óeðlilegt. Við vorum að reyna að gera það sem var best í stöðunni, þó svo við vildum gera meira. Þetta var ekkert leyndarmál hjá okkur hvað við værum að gera en við vorum heldur ekki að auglýsa það útá við.

Þegar sögusagnir eða orðrómur fer af stað, þá gætir oft misskilnings. Við höfum alltaf verið boðin og búin að upplýsa um stöðuna og það er alltaf best að leita réttra upplýsinga á réttum stöðum og fá þá réttar upplýsingar frá fyrstu hendi. Ef það vantar betri upplýsingar eða annað þá má viðkomandi endilega setja sig í samband við okkur í SH.

Nú er sundárið að fara hægt af stað aftur, ennþá eru ákveðnar takmarkanir og félögin að reyna að koma æfingum fyrir í laugunum. Ekki eru allar sundlaugar komnar í gagnið hjá okkur í Hafnarfirði og því erfitt að koma öllum að á æfingum hjá okkur nú. Framundan eru nokkur sundmót á þessu sundári og þar á meðal AMÍ og ÍM50.

AMÍ 2020 verður haldið í Ásvallalaug í Hafnarfirði dagana 3. – 5. júlí og hlökkum við til að taka á móti öllum keppendum, starfsmönnum og aðstandendum og gera skemmtilegt mót. Að sjálfsögðu förum við eftir þeim sóttvarnareglum sem verða í gildi. Það eru tíu ár síðan AMÍ var síðast í Hafnarfirði og í sumar verður SH 75 ára.

 

Með von um góðan árangur hjá sundmönnum eftir erfiða og fordómalausa tíma,

Fyrir hönd stjórnar Sundfélags Hafnarfjarðar

Karl Georg Klein, formaður